Vísindamenn finna örplast í Vatnajökli

26.4.2021

Örplastagnir í náttúrunni geta mögulega flýtt fyrir bráðnun jökla og haft þannig áhrif á hækkandi sjávarstöðu. Fyrstu niðurstöður rannsóknar á dreifingu örplasts í Vatnajökli, stærsta jökli í Evrópu, voru birtar nýlega í vísindaritinu Sustainability. Þar fundu vísindamenn Háskólans í Reykjavík, Háskólans í Gautaborg og Veðurstofu Íslands örplast í ísnum sem tekinn var á fáförnu svæði á ísbreiðunni.

Talsvert hefur verið rætt um plastmengun í sjó og lífríki sjávar en mengun í jöklum hefur ekki verið rannsökuð jafnmikið. Þessu vildu vísindamenn frá verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, Jarðfræðistofnunar Háskólans í Gautaborg og Veðurstofu Íslands bæta úr.

„Við staðfestum að það er örplast í Vatnajökli,“ segir Hlynur Stefánsson, dósent við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Auk hans tekur þátt í rannsókninni Einar Jón Ásbjörnsson, lektor við verkfræðideild. „Við greindum örplastagnir í snjókjörnum sem safnað var á afskekktum og óspilltum stað á Vatnajökli. Með því að nota smásjá og litrófsgreiningu sáum við og greindum örplastagnir af ýmsum stærðum og gerðum. Niðurstöður okkar sýna að flutningur örplastagna í andrúmsloftinu sé raunveruleiki sem við verðum að horfast í augu við.“

Hlynur-og-EinarFrá vinstri: Hlynur Stefánsson og Einar Jón Ásbjörnsson. 

Rannsaka næst áhrif plastsins á bráðnun jökla

Plastið kom fram á sjónvarsviðið upp úr 1950 og þess vegna er í raun ekki um langan tíma að ræða en nú glímum við við afleiðingar plastframleiðslunnar. 

„Mikilvægur hluti þess að skilja útbreiðslu plastsins er að kortleggja og skilja tilvist og dreifingu örplasts í náttúrunni. „Þessar rannsóknir á örplasti í ísbreiðum jarðarinnar eru að fara af stað, til dagsins í dag hafa fundist agnir í ítölsku Ölpunum, Andesfjöllum í Ecuador og í ísjökum við Svalbarða,“ segir Hlynur. 

Vatnajokull

„Í framhaldi af þessum fyrstu niðurstöðum munum við rannsaka hvernig plastagnirnar hafa áhrif á ljósnæmi íssins og byggingu hans, og hvort þær geti mögulega flýtt fyrir bráðnum jökla. Allur ís heimsins er stundum kallaður gráhvolf og það er viðkvæmt kerfi og breytingar á því hafa mikil áhrif á loftslag heimsins og sjávarstöðu.“

En getur verið að plastið hafi borist með fólki á jökulinn? „Nei það er afar ólíklegt, sýnin sem við tókum voru þar sem fáir komast að og þess vegna er auðvelt að útiloka beina mengun af mannavöldum. Vatnajökull og Ísland henta reyndar afar vel til rannsókna á örplastsmengun í ís. Jökullinn er sá stærsti í Evrópu og tiltölulega auðvelt að finna staði á ísbreiðunni sem eru utan seilingar fyrir ferðafólk, og landið er fámennt.“

Dreifing plasts með náttúruöflunum

Markmið rannsóknarhópsins er að nýta þessar aðstæður til að rannsaka langtímadreifingu plasts með náttúruöflum ásamt áhrifum þess á bráðnun jökla. „Plastagnirnar sem fundust á Vatnajökli eru svipaðar að gerð og þær sem hafa fundist í öðrum rannsóknum af sama tagi. Gögnin okkar og óbirt gögn sem eru væntanleg úr annarri jöklarannsókn hér sýna fram á að það er umtalsverð plastmengun í íslenskum jöklum. Því miður.“

Að rannsókninni standa, auk Hlyns og Einars Jóns, Erik Sturkell, Mark Peternell og Matthias Konrad-Schmolke frá Háskólanum í Gautaborg og Hrafnhildur Hannesdóttir frá Veðurstofu Íslands.